news

Ævintýraferð elstu barnanna

15. 05. 2019


Í gær 14. maí fóru elstu börnin í Krakkakoti ásamt elstu börnunum í Holtakoti og Bæjarbóli í Ævintýraferð með Lionsklúbbi Álftaness. Lionsmenn hafa boðið börnunum í þessa vorferð til margra ára og erum við mjög þakklát fyrir þessa velunnara okkar. Þarna mæta með okkur 8 - 10 Lionsmenn og gera þennann dag ógleymanlegan.

Við byrjuðum daginn á rútuferð upp í Ölver þar sem einn Lionsfélagi bauð okkur í heimsókn í sumarbústaðinn sinn. Þar fórum við í leiki sem Andrés stórvinur okkar sá um með sinni alkunnu snilld. Siðan borðuðu allir grillaðar pylsur og léku sér í góða veðrinu en það var 14 - 16 stiga hiti og sól sem gerði daginn enn betri. Eftir að hafa borðað grillaðar pylsur og fengið ís var aftur farið í rútu og ferðinni heitið að Háafelli við Hvítársíðu til Jóhönnu geitabónda.

Að Háafelli var sól og blíða og börnin undu sér afskaplega vel við að skoða og klappa kiðlingum og leika í umhverfinu sem var ævitýri líkast. Lækurinn heillaði marga og það var skemmtilegt að leika sér í gömlum fjárhúsum þar sem voru allskonar skemmtileg skúmaskot. Dásamlegur dagur í alla staði og börnin nutu sín í botn.

Takk kæru vinir í Lionsklúbbi Álftaness fyrir dásamlegan dag og allar velgjörðir.

© 2016 - 2019 Karellen